Málsmeðferðartími Kærunefndar útlendingamála styttist enn

Af tölum sem kærunefnd útlendingamála hefur tekið saman eftir annað starfsár nefndarinnar má sjá að málsmeðferðartími hefur haldið áfram að styttast. Blikur eru þó á lofti um framhaldið vegna takmarkaðra fjárheimilda nefndarinnar fyrir árið 2017. Meðalmálsmeðferðartími hælismála síðustu þrjá mánuði ársins var 84 dagar sem er undir 90 daga málsmeðferðarmarkmiðum stjórnvalda. Mál sem hlotið hafa flýtimeðferð þar sem umsækjendur komu frá öruggum ríkjum voru afgreidd á 8,8 dögum að meðaltali. Til samanburðar var meðalmálsmeðferðartími hælismála 237 dagar árið 2015 sem var ennfremur veruleg stytting frá árinu 2014.

Nefndin lítur svo á að stuttur málsmeðferðartími sé einn af hornsteinum mannúðlegrar málsmeðferðar umsókna um alþjóðlega vernd enda getur löng bið eftir niðurstöðu haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu umsækjenda. Málsmeðferðin verður þó að tryggja að mál fái einstaklingsbundna skoðun til að réttaröryggi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi sé tryggt.

Af tölum um starf nefndarinnar má einnig sjá verulega aukningu í fjölda innkominna mála sem og á afköstum nefndarinnar en nefndin afgreiddi tæplega fjórum sinnum fleiri hælismál á árinu 2016 en hún gerði árið á undan, eða 450 mál á móti 122 málum árið 2015.

Á árinu fjölgaði nefndarmönnum úr þremur í sjö og varaformaður var skipaður í fullt starf við nefndina. Starfmönnum nefndarinnar var einnig fjölgað verulega á seinni hluta síðasta árs. Á grundvelli lagabreytinga á árinu voru verkferlar einfaldaðir og straumlínulagaðir. Þessir þættir voru á meðal forsendna þess að nefndinni tókst að stytta málsmeðferðartíma á árinu þrátt fyrir fordæmalausa fjölgun mála, sérstaklega á haustdögum.

Staðfestingarhlutfall úrskurða kærunefndarinnar í Dyflinnarmálum hækkaði úr 73% í 82% á milli ára en í öðrum hælismálum fór þetta hlutfall úr 63% í 80%. Með staðfestingarhlutfalli er átt það hlutfall af úrskurðum kærunefndar þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar að öllu leyti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *