Hvernig get ég kært

Ákvarðanir Útlendingastofnunar samkvæmt útlendingalögum (alþjóðleg vernd, dvalarleyfi, búsetuleyfi, vegabréfsáritanir, brottvísun, og frávísun) eru kæranlegar til kærunefndar útlendingamála. Útlendingastofnun veitir leiðbeiningar í ákvörðun sinni um hvernig kæra má ákvörðunina. Kærufrestur er almennt 15 dagar frá birtingu ákvörðunarinnar. Ef um er að ræða umsókn um alþjóðlega vernd og kærandi kemur frá öruggu upprunaríki þá er kærufrestur fimm dagar. Flestar kærur á ákvörðunum um hæli eru lagðar fram við birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar þegar merkt er við tiltekið box á birtingarvottorði. Ef kært er síðar er kæra jafnan send kærunefnd útlendingamála í pósti eða með tölvupósti.

Ef kæra er send í tölvupósti staðfestir kærunefndin móttöku póstsins. Ef staðfesting berst ekki innan hálftíma er kæranda ráðlagt að hafa samband við kærunefndina. Ef hefðbundin póstþjónusta er notuð er ráðlegt, til að tryggja sönnun á afhendingu kæru, að senda kæru í ábyrgðarpósti. Lok kærufrests miðast við póstsendingardag.

Kærunefnd útlendingamála gerir ekki kröfur um ákveðið form kæru. Nauðsynlegt er þó að nafn og heimilisfang kæranda komi fram í kæru, sem og tölvupóstur og/eða sími, svo hægt sé að hafa samband við kæranda á meðan kærumálið er til meðferðar hjá nefndinni.

Rauði kross Íslands hefur með samningi við dómsmálaráðuneytið tekið að sér hagsmunagæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Starfsmenn Rauða krossins geta gefið slíkum umsækjendum frekari upplýsingar um kæru og málsmeðferð fyrir nefndinni. Kærunefndin gerir ekki kröfu um að aðrir kærendur njóti aðstoðar talsmanns en þar sem kærumál geta verið flókin er mælt með að kærendur fái ráðgjöf frá löglærðum aðila, a.m.k. á fyrstu stigum málsins.