Skipulag og hlutverk

Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd skipuð sjö aðalmönnum. Nefndarmenn eru sérfróðir um mál sem falla undir útlendingalög einkum hvað varðar dvöl og búsetu útlendinga hér á landi, málefni flóttamanna og rétt til alþjóðlegrar verndar. Þeir eru skipaðir til fimm ára í senn. Dómsmálaráðherra skipar formann nefndarinnar og varaformann að undangenginni auglýsingu og valferli. Formaður og varaformaður nefndarinnar, sem hafa starfið að aðalstarfi, skulu uppfylla skilyrði til að starfa sem héraðsdómari. Þrír nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Tveir nefndarmenn eru skipaðir án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.

Formaður kærunefndar útlendingamála fer með yfirstjórn hennar. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Formaður ræður starfsfólk nefndarinnar, gerir starfsáætlun um fundi nefndarinnar og afgreiðslu kærumála. Hann tekur ákvarðanir um rannsókn mála og gagnaöflun.

Við úrlausn kærumála hefur nefndin sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og af því leiðir gefur ráðherra nefndinni hvorki almenn né sérstök tilmæli um úrlausn mála.

Hlutverk kærunefndar útlendingamála er aðallega að rannsaka og úrskurða í kærumálum. Nefndin hefur ekki með höndum umönnun hælisleitenda eða aðra félagslega aðstoð sem hælisleitendur þurfa og eiga rétt á. Þá kemur nefndin ekki að stefnumörkun í þessum málaflokki að öðru leyti en því sem leiðir af úrskurðum hennar. Framkvæmd úrskurða nefndarinnar er í höndum Útlendingastofnunar og Ríkislögreglustjóra.