Málsmeðferð

Um málsmeðferð kærunefndar útlendingamála gilda lög um útlendinga, reglugerð um útlendinga sem og stjórnsýslulög. Formaður eða varamaður hans stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Að jafnaði sitja þrír nefndarmenn fundi kærunefndar til að fjalla um hvert mál sem nefndinni berst. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meirihluti niðurstöðu máls.

Eftir að kærunefnd berst kæra er stjórnvaldi og kæranda gefinn hæfilegur frestur til að leggja fram athugasemdir og/eða frekari gögn. Kærandi hefur þá tækifæri til að tilgreina þau atriði sem skipta meginmáli.

Kærunefndin metur að nýju alla þætti málsins. Hún getur ýmist staðfest ákvörðun að niðurstöðu til, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað málinu til meðferðar að nýju til Útlendingastofnunar.

Málsmeðferð skal að jafnaði vera skrifleg. Í málum sem varða umsókn um alþjóðlega vernd eða umsókn um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða getur kærunefndin boðið kæranda að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls eða einstök atriði þess. Nefndin getur einnig kallað til aðra en kæranda, svo sem maka kæranda eða aðra aðstandendur.

Formanni eða varaformanni er heimilt að úrskurða í málum sem nefndin hefur til meðferðar varðandi vegabréfsáritanir, ákvarðanir sem snerta málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og beiðnir um frestun réttaráhrifa ákvarðana Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar. Þá er formanni eða varaformanni jafnframt heimilt að úrskurða einum í málum er varða umsókn um alþjóðlega vernd ef kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og Útlendingastofnun hefur afgreitt málið sem flýtimeðferðarmál á grundvelli b–f-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Meiri hluta fullskipaðrar nefndar er einnig heimilt að fela formanni og varaformani að úrskurða einum í öðrum tegundum mála þar sem nefndin telur að framkvæmd og fordæmi séu svo skýr að ekki sé nauðsynlegt að afgreiða slík mál á nefndarfundi.