Tölfræði Kærunefndar útlendingamála 1. júlí 2016

Veruleg stytting málsmeðferðartíma
Kærunefnd útlendingamála hóf störf snemma árs 2015 og er nú á öðru starfsári sínu. Tölur sem teknar hafa verið saman eftir fyrri hluta ársins 2016 sýna vel árangurinn frá upphafi. Eitt af brýnustu verkum nefndarinnar var að stytta málsmeðferðartíma hælismála en óumdeilt er að löng bið hælisleitenda eftir niðurstöðu í sínum málum getur haft slæm áhrif á andlega heilsu þeirra og skapað mikið óöryggi fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Eins og sjá má á súluritinu hér að neðan hefur kærunefndin náð að stytta málsmeðferðartíma kæruferilsins verulega, bæði í venjulegum hælismálum og Dyflinnarmálum. Málsmeðferð í Dyflinnarmálum hefur styst úr 483 dögum að meðaltali á 2. ársfjórðungi 2015 í 87 daga á sama tímabili á þessu ári, eða um 82%. Á sama tíma hefur málsmeðferð í öðrum hælismálum styst um 56%.

Staðfestingarhlutfall hefur hækkað
Kærunefnd útlendingamála endurskoðar ákvarðanir Útlendingastofnunar sem kærðar eru til nefndarinnar. Nefndin getur staðfest ákvörðun stofnunarinnar, breytt henni eða sent málið til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Ástæður þess að nefndin kann að ákveða að staðfesta ekki ákvörðun stofnunarinnar geta verið margvíslegar. Ný gögn geta hafa komið fram sem breyta forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar og atvik kunna hafa breyst á þeim tíma sem beðið er niðurstöðu kærunefndar. Þá getur kærunefnd túlkað lög, alþjóðasamninga og gögn málsins á annan hátt en Útlendingastofnun. Á neðangreindu súluriti má sjá að staðfestingarhlutfallið hefur hækkað nokkuð en það er eðlileg þróun af ýmsum ástæðum. Helst má nefna að tíminn sem líður á milli úrskurðar kærunefndar og ákvörðunar Útlendingastofnunar er styttri og minni líkur á að aðstæður hælisleitenda hafi breyst. Þá er orðið meira samræmi á milli túlkunar Útlendingastofnunar og kærunefndar á þeim lögum sem um þessi mál gilda og á þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar.

Þreföldun á innkomnum málum
Fjöldi kærumála sem borist hefur nefndinni hefur breyst verulega á milli ára. Á fyrri hluta ársins 2015 bárust nefndinni 62 kærur á hælisúrskurðum Útlendingastofnunar, þ.m.t. Dyflinnarmál. Á sama tímabili á þessu ári bárust nefndinni 197 hælismál sem er meira en þreföldun á málafjölda. Að meðtöldum dvalarleyfismálum og öðrum kærum bárust nefndinni 304 mál á fyrri hluta ársins 2016 á meðan 99 mál bárust á sama tíma í fyrra.

Veruleg fjölgun hælisúrskurða
Fjöldi úrskurða í hælismálum hefur einnig aukist verulega en á fyrri hluta ársins 2015 kvað nefndin upp 29 úrskurði í hælismálum. Þó ber að hafa í huga að nefndin hóf ekki úrskurðarvinnu sína af fullum þunga fyrr en í mars 2015. Á fyrri helmingi þessa árs hefur nefndin kveðið upp 148 úrskurði í hælismálum sem eru um 55% fleiri úrskurðir í hælismálum en allt árið í fyrra.

Fyrirsjáanlegar breytingar
Kærunefndin er um þessar mundir að undirbúa flutning í nýtt húsnæði. Starfsfólki og nefndarmönnum er að fjölga og varaformaður hefur nú verið ráðinn í fullt starf. Þá hefur nýleg breyting á útlendingalögunum einfaldað málsmeðferðina nokkuð. Allt þetta mun leiða til aukinnar skilvirkni og hraðari málsmeðferðar. Þrátt fyrir aukinn hraða og einfaldari málsmeðferð í sumum tegundum mála munu einstaklingsbundnar aðstæður hælisleitenda þó alltaf fá nákvæma skoðun til að tryggt sé að réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig séu virt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.