VERULEGUR ÁRANGUR NÁÐST VIÐ AÐ STYTTA MÁLSMEÐFERÐARTÍMA HÆLISMÁLA

Eftir fyrsta starfsár kærunefndar útlendingamála er ljóst að verulegur árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma. Nefndin er mjög meðvituð um að löng málsmeðferð og bið eftir niðurstöðu reynist hælisleitendum jafnan erfið. Ef niðurstaða er neikvæð og hælisleitendur þurfa að fara af landi brott geta tengsl sem fólk hefur myndað oft gert viðskilnað erfiðan, sérstaklega ef um er að ræða barnafjölskyldur.

Málsmeðferðartími hjá kærunefnd útlendingamála á árinu 2015 litaðist mjög af eldri málum sem nefndin fékk á sitt borð við stofnun nefndarinnar. Við lok 2015 hafði nefndinni þó tekist að ljúka öllum eldri málum frá 2014 og fyrr, en um síðustu áramót voru um 90% af málum í vinnslu yngri en sex mánaða. Meðalaldur allra mála í vinnslu 1. janúar sl. var 106 dagar en var 294 dagar ári áður. Þá hafði fjöldi mála í vinnslu einnig lækkað verulega frá því að nefndin hóf að úrskurða þrátt fyrir metfjölgun hælisleitenda og kærumála á haustmánuðum 2015.

Taflan hér að neðan sýnir vel þann árangur sem náðst hefur á fyrsta starfsári kærunefndarinnar.

Meðalaldur mála hefur enn haldið áfram að lækka og var 86 dagar 1. febrúar sl. Talsverð óvissa ríkir þó um framhaldið. Fyrstu tölur um fjölda mála benda til mun meiri fjölgunar milli ára en innanríkisráðuneytið gerði ráð fyrir í forsendum fjárlaga fyrir 2016. Í janúar fékk nefndin t.d um þrefalt fleiri hælismál til sín en mánaðarmeðaltal síðasta árs, en sú fjölgun er í samræmi við spár Útlendingastofnunar um aukin fjölda hælismála á þessu ári.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.